
Eins og svo margir bjó ég að góðri heilsu fyrsta æviskeið mitt og veitti líkamanum enga athygli. Sem málari fyrir kvikmyndir og sjónvarp ætlaðist ég til að hann ynni dag og nótt, að hann skriði og klifraði, að hann sætti sig við eitraðar efnablöndur og ryk. Algjörlega föst í eigin huga hunsaði ég allar þær vísbendingar sem hann sendi mér og varð miður mín þegar ég greindist með krabbamein áður en ég varð þrítug. Það var mesta vakning sem ég hef upplifað, en þegar ég var að jafna mig eftir brjóstaskurð var ég meira en tilbúin að fara að hlusta.
Sem betur fer var ég búsett í New York, þar sem Pilates-aðferðafræðin var þróuð, og á leið minni aftur til heilsu kynntist ég þeirri aðferðarfræði sem átti eftir að hafa svo mikil og dásamleg áhrif á líf mitt.
Ekki leið á löngu þar til ég hafði náð aftur styrk, endurheimt notkun á handleggjunum og var tilbúin að kafa dýpra.
Ég fann vöðva sem ég hafði aldrei notað áður, öndun sem gaf mér styrk, og getu til að kanna innri rými þar sem ég gat í raun skynjað hvaða möguleika væri hægt að virkja til að lifa í þessum heimi með vellíðan og ánægju.
Þegar ég hafði öðlast þessa þekkingu fann ég fyrir ótrúlegri löngun til að deila henni með öðrum, og það hefur verið mín ánægja og forréttindi að gera það. Að uppgötva hvað líkaminn er fær um, að kafa dýpra í skilning á sjálfum sér, að losna við langvarandi verki – þetta er stórkostleg gjöf sem hver sem er getur fengið með smá þolinmæði og forvitni.
Ég elska að kenna þeim sem hafa enga reynslu af Pilates, því það er svo skemmtilegt að fylgjast með umbreytingunni bæði innra með þeim og ytra. Fólk sem heldur að það hati hreyfingu er í sérstöku uppáhaldi hjá mér! Með skynsemi og húmor skoðum við og lærum, og fyrr en varir byggist nýtt samband við sjálfan sig; líkama, huga, tilfinningar og anda.